Þátttaka foreldra í íslenskunámi og lestrarþjálfun barna sinna
Stefanía Lára Ólafsdóttir
Hugum saman að virku lestrar-, orðaforða- og tungumálanámi barna
Fræðslumyndbönd
Stefanía Lára Ólafsdóttir
Stefanía Lára útskrifaðist með B.Ed. gráðu í grunnskólakennslu yngri barna vorið 2020. Hún mun ljúka meistaranámi á sama kjörsviði í júní 2022. Stefanía hefur unnið sem stuðningsfulltrúi í nokkur ár, bæði í grunnskólum á Íslandi og í Svíþjóð. Hún hefur stundað samtímadans frá því í grunnskóla og hefur mikinn áhuga á margskonar list og listsköpun.
„Vinnuferlið var einstaklega fjölbreytilegt, skapandi og skemmtilegt. Það einkenndist mikið af teymisvinnu og hana er ég afar þakklát fyrir. Það helsta sem ég tek með mér úr þessu ferli og í komandi kennarastarf er áhugi minn og þekking á efninu, reynsla af teymisvinnu og notkun listsköpunar og tækni í skólastarfi og kennslu.“
Bækur fyrir börn og fullorðna af erlendum uppruna
Nýjar slóðir er bók fyrir fólk af erlendum uppruna sem búið er með grunninn í íslensku og langar að læra meira. Höfundur er Kristín Guðmundsdóttir.
Árstíðir er bók eftir Karítas Hrundar Pálsdóttur. Bókin er safn frumsaminna sagna ætlað þeim sem tileinka sér íslensku sem annað mál.
Talar þú Cebuano? Er bók sem inniheldur ævintýri fjöltyngdra barna á Íslandi. Höfundar eru Aleksandra Chlipala og Klaudia Migda
Nú býr Lili á Íslandi er barnabók sem sérstaklega er hugsuð fyrir börn af erlendum uppruna og foreldra þeirra. Bókin er B.Ed. verkefni Stefaníu Láru Ólafsdóttur.
Hvar finn ég foreldra? Er barnabók á íslensku og pólsku. Bókin er B.Ed. verkefni Helgu Hreiðarsdóttur.
Við látum ekkert stoppa okkur! Er barnabók sem stuðlar að jákvæðum viðhorfum barna til fjölbreytileika samfélagsins. Bókin er B.A. verkefni Líneyjar Guðmundsdóttur og Helgu Rúnar Halldórsdóttur.
Krækjur á gagnlega vefi
- Móðurmál. Vefsíða samtaka um tvítyngi á Íslandi.
- 100 orð. Vefsíðan er ætluð sem kennsluefni við lestrarnám í grunnskóla og miðar að eflingu sjónræns orðaforða.
- Tungumálatorg. Vefsíðan byggist upp af vefhlutun þar sem upplýsinga-, ráðgjafar-, námsefnis- og samskiptavefir leika stór hlutverk.
- Tónabrú. Lærðu íslensku með tónlist. Tónabrú býður upp á fjölbreytt íslenskunám fyrir börn af erlendum uppruna.
- Pólski skólinn á Íslandi.
- Orðaleikur er námsefni fyrir börn af erlendum uppruna sem eru að læra íslensku sem annað mál.
Lestrarþjálfun barna
Grunnskólar á Íslandi leggja mikla áherslu á lestrarþjálfun nemenda enda er virk lestrarþjálfun undirstöðuatriði þess að læra tungumál. Lestrarþjálfun í grunnskóla byrjar strax í fyrsta bekk og nemendur eiga að lesa bæði í skólanum og heima, á hverjum degi, til að ná sem bestum árangri.
Það skiptir miklu máli að börn af erlendum uppruna sem hafa annað móðurmál en íslensku fái góða lestrarþjálfun. Þau þurfa mörg og rík tækifæri til að ná góðum tökum á íslensku tungumáli og efla eigin málþroska. Lykilatriðið í vellíðan og námsárangri barna af erlendum uppruna er samvinna milli heimila og skóla. Þetta á ekki síst við um lestrarþjálfun. Þó skólinn taki réttilega meiri ábyrgð þá geta heimilin haft mikið að segja þegar kemur að áhuga og árangri barna í íslenskunámi og lestri.
Virkt fjöltyngi
Börn af erlendum uppruna eru oft í fjölbreyttu tungumálaumhverfi og nota tvö eða fleiri tungumál í daglegu lífi. Þessi hópur barna er gjarnan kallaður fjöltyngd börn. Samhliða íslenskukennslu fjöltyngdra barna er mikilvægt að styðja vel við móðurmál þeirra en móðurmál eru undirstaða tengsla barna við foreldra, fjölskyldumeðlimi og menningarheima þeirra. Fjöltyngd börn geta haft fleiri en eitt móðurmál og þá er gott að reyna að viðhalda þeim báðum jafn vel. Þannig er stuðlað að virku fjöltyngi sem skilar sér í vellíðan og árangri barna.
Orðaforðanám
Orðaforði er höfuðþáttur í tungumálanámi og lestrarkennslu. Því ríkulegri orðaforða sem barn hefur, því meira af textanum skilur það og í kjölfarið verður lesturinn auðveldari. Það er því sérstaklega mikilvægt að börn af erlendum uppruna þjálfi orðaforða reglulega, helst á hverjum degi. Skólinn veitir stöðugt orðaforðanám og barnið fær jafnvel sérstaka íslenskukennslu til að byrja með. Þrátt fyrir það getið þið sem foreldrar hjálpað barninu ykkar að taka framförum fyrir utan skóla.
Orðaforði í ritmáli er margfalt stærri en í töluðu máli og því er hægt að læra flest orð gegnum lestur bóka. Börn af erlendum uppruna og öll börn hafa því gott af reglulegum lestrarstundum og þurfa bæði tækifæri á að lesa sjálf og hlusta á lestur annarra. Á meðan lestri stendur er mjög gott að ræða við börnin um innihald textans og stuðla þannig að virku orðaforðanámi.
Auk lesturs geta börn þjálfað eigin orðaforða gegnum fleiri og fjölbreyttari leiðir. Þau geta til dæmis tekið þátt í athöfnum sem krefjast samskipta við aðra, eins og að spila spil, leika sér frjálst, fara í skipulagða leiki og eiga í samræðum. Þá geta þau lært mörg ný orð með því að horfa á myndefni og hlusta á hljóðefni, bíómyndir og hljóðbækur eru til dæmis mjög góðir valkostir. Svo er hægt að nýta tækni til fjölbreytts orðaforðanáms. Gott er að kennarar og foreldrar séu meðvitaðir um ávinning orðaforðanáms og reyni á hverjum degi að stuðla að virkri orðaforðaþjálfun barna.